Sport

Frábært hlaup Örnu Stefaníu skilaði henni í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Stefanía Guðmundsdóttir,
Arna Stefanía Guðmundsdóttir, Vísir/Stefán
Arna Stefanía Guðmundsdóttir tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum í 400 metra grindarhlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Amsterdam í Hollandi.

Arna Stefanía setti nýtt persónulegt met þegar hún hljóp á 57,14 sekúndum og það skilaði henni öðru sæti í sínum riðli.

Tveir fremstu hlauparar í hverjum riðli komust áfram í undanúrslit og því vissi Arna það strax að hún væri komin áfram. Fyrir utan fyrstu tvær í hverjum riðli komust einnig áfram þær sex sem náðu bestum tíma af hinum.

Arna Stefanía Guðmundsdóttir er 21 árs gömul og keppir fyrir FH. Hún mun síðan keppa í undanúrslitunum á mótinu á morgun

Arna Stefanía kom í marki 31 sekúndubroti á undan Belganum Nenah de Coninck sem varð í þriðja sæti í riðlinum.  Hollendingurinn og heimakonan Bianca Baak vann riðilinn með því að hlaupa á 56,88 sekúndum.

Besti tími Örnu Stefaníu á árinu var 57,79 sekúndur frá því Kaupmannahöfn í júní síðastliðnum en hennar besti persónulegi árangur var 57,60 sekúndur frá því í ágúst 2015. Sá tími hefði ekki dugað henni í þrjú efstu sætin í riðlinum.

Arna Stefanía var með sjöunda besta tímann inn í undanúrslitin og verður vonandi með í baráttunni um sæti í úrslitahlaupinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×