Erlent

ISIS lýsa yfir ábyrgð á árásinni í Nice

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Húsleit var framkvæmd á heimili árásarmannsins.
Húsleit var framkvæmd á heimili árásarmannsins. Vísir/Getty
Samtök um Íslamskt ríki hafa lýst ábyrgð á árásinni í Nice í fyrradag á hendur sér. Lögreglan í Nice handtók í gær og í morgun fimm einstaklinga í tengslum við árásina þar sem 84 létust og yfir 200 særðust.

Á meðal þeirra handteknu er fyrrverandi eiginkona árásarmannsins Mohamed Lahouaiej- Bouhel, sem var 31 árs gamall karlmaður með ríkisfang í Túnis og í Frakklandi. Hann ók vöruflutningabíl seint á fimmtudagskvöld inn í mannhaf á breiðgötu í miðborg Nice þar sem fjöldi fólks, og barna, hafði komið saman til að fylgjast með flugeldasýningu í tilefni af Bastilludeginum, þjóðhátíðardegi Frakka. 84 létust í árásinni, þar af tíu börn, og yfir 200 slösuðust en þar af eru um fimmtíu enn á gjörgæslu.

Bouhel starfaði sem bílstjóri og sendill og átti þrjú börn. Hann hafði áður komist í kast við lögin fyrir smávægileg afbrot, en var ekki á lista franskra yfirvalda yfir menn grunaða um að tengjast hryðjuverkasamtökum.

Samtök sem kenna sig við Íslamskt ríki hafa lýst ábyrgð á ódæðinu á hendur sér. Segja þau að Bouhel hafi orðið við beiðni þeirra um að gera árásir á alla þá sem staðið hafi barist gegn samtökunum með loftárásum.

Húsleit var gerð á heimili mannsins í gærmorgun og sagði saksóknari á svæðinu að þar hefðu fundist ýmis gögn sem kunna að koma sér vel við rannsókn málsins. 

Fyrrverandi eiginkona mannsins var handtekin í gærmorgun og annar maður með tengsl við hann síðar um daginn. Þrír aðrir sem sagðir eru tengjast manninum og skipulagningu árásarinnar í gær voru svo handteknir í morgunn af frönsku lögreglunni.

Þriggja daga þjóðarsorg er í Frakklandi, og neyðarástand vegna hryðjuverkaógnar sem afnema átti síðar í júlí hefur verið framlengt um þrjá mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×