Á dögunum fékk ÍSÍ í hús búnað fyrir Ólympíuleikana í Ríó 2016, en þátttakendur í ár munu klæðast fötum og skóm frá kínverska íþróttavörufyrirtækinu Peak. ÍSÍ segir frá komu sendingarinnar frá Kína á heimasíðu sinni.
Á Ólympíuleikunum gilda mjög strangar reglur varðandi fatnað og stærð merkinga. Þannig er allur fatnaður án auglýsinga og eingöngu með einu litlu merki framleiðanda á hverri flík.
Sérpanta þarf því allan fatnað með löngum fyrirvara og gera ráð fyrir öllum þeim keppendum sem eiga möguleika á þátttöku sem og fylgdarmönnum þeirra.
Þetta var engin smá sendingin frá Kínverjunum en um níu vörubretti var að ræða og alls um 1,2 tonn af vörum.
Örvar Ólafsson, starfsmaður á Afreks- og Ólympíusviði ÍSÍ, fékk það verkefni að taka upp úr kössunum og verður líklega upptekinn við það næstu daga.
Á næstu dögum verður endanlega ljóst hvernig íslenski hópurinn á Ólympíuleikunum í Ríó verður skipaður, en leikarnir verða settir á Maracana vellinum í Ríó þann 5. ágúst næstkomandi. Átta íslenskir keppendur hafa þegar tryggt sér sæti á leikunum.
