Bjarni Jóhannsson þjálfari ÍBV var vitaskuld ánægður eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik Borgunarbikarsins eftir sigur á FH.
„Þetta er frábært, alveg meiriháttur. Stuðningurinn hér, sólin og Dalurinn þetta hjálpast allt að. Það var frábær stemmning og sérstaklega í liðinu í seinni hálfleik,“ sagði Bjarni sigurreifur í samtali við Vísi að leik loknum.
ÍBV þurfti að gera breytingu á sínu liði strax eftir rúmar tíu mínútur þegar varnarmaðurinn og fyrirliðinn Avni Pepa meiddist.
„Það gekk ótrúlega vel og kom mjög á óvart hvað við vorum vel spilandi til baka. Við vorum í vandræðum í fyrri hálfeik með ákveðna hluti og fáum svo markið sem hleypir þessu í svolítið annan leik. Svo var frábær dugnaður og áræðni í seinni hálfleik sem skóp það að við héldum þessu marki,“ bætti Bjarni við.
Nú er Þjóðhátíð framundan og ekki annað hægt að segja en að hún hafi byrjað fyrir Eyjamenn á Hásteinsvelli í kvöld.
„Það verður aðeins að leyfa sér smá og leyfa drengjunum aðeins að fíla þetta. En þeir vita alveg hvað er í vændum á næstu dögum. Það þýðir ekkert að vera með hausinn í jörðinni í Dalnum, menn verða að vera glaðir þar.“
Úrslitaleikur ÍBV og Vals fer fram á Laugardalsvelli þann 13.ágúst. Bjarni sagði liðið hafa farið erfiða leið í úrslitin.
„Hann leggst vel í mig. Þetta er búin að vera svakaleg leið í þennan úrslitaleik. Við erum búnir að slá út Stjörnuna og Breiðablik á útivelli og fengum sannarlega að hafa fyrir því í fyrsta leik gegn Hugin hér á heimavelli. Þetta er leið í erfiðari kantinum en þú verður stundum að fara þessa leið,“ sagði Bjarni Jóhannsson að lokum.
