Ragna Ingólfsdóttir, fyrrum Ólympíufari og badminton-goðsögn, hélt athyglisverða ræðu á opnum útifundi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Íþrótta og Ólympíusambands Íslands í sólinni fyrir utan húsakynni ÍSÍ í Laugardalnum.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta og Ólympíusamband Íslands undirrituðu í dag tímamótasamning til næstu þriggja ára um stóraukið fjárframlag ríkisins til afreksíþrótta á Íslandi. Framlagið mun hækka í áföngum úr 100 milljónum á fjárlögum síðasta árs í 400 milljónir á næstu þremur árum og er því um fjórföldun að ræða.
Ragna sagði að Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, hafi snúið upp á handlegginn á sér en sem betur fer gerði hún það því úr varð persónuleg og skemmtileg ræða sem gaf gestum sýn inn í líf íslensks afreksíþróttafólks á síðustu árum.
„Ég heiti Ragna Ingólfsdóttir og ég æfði badminton í 21 ár og þar af í tíu ár sem atvinnumaður á Íslandi eins langt og það náði. Ég fór á tvenna Ólympíuleika, 2008 og 2012, og reyndi við þrenna. Ég held að ég hafi mögulega komist inn 2004 ef að ég hefði verið með meiri pening á milli handanna," byrjaði Ragna ræðuna sína.
„Ég var á afreksstyrk frá 2002 til 2012. Allan tímann var upphæðin sú sama eða 80 þúsund krónur á mánuði í tvö ár fyrir leika. Ég mátti ekki nota það til framfærslu heldur þurfti ég að eyða því í til dæmis hótel og flug. Það var því ekki mikill peningur á milli handanna," sagði Ragna.
„Ég fór þá leið að klára menntaskólann utan skóla svo að ég gæti æft eins mikið og ég mögulega gæti og farið í eins margar keppnir og ég mögulega gæti. Ég skráði mig síðan í líklega eina námið í HÍ þar sem ekki er skyldumæting í tíma. Það var heimspeki og ég kláraði hana á fjórum og hálfu ári," sagði Ragna og margir áhorfendur skelltu þá upp úr.
„Ég fékk námslán á meðan og það var peningurinn sem ég notaði til þess að halda mér uppi. Ég æfði sex daga vikunnar í fjóra til sex tíma á dag. Þetta var ekki nægur peningur til þess að halda mér uppi þannig að ég þurfti líka að þjálfa," sagði Ragna.
„Það sem ég vil fagna hér í dag er að afreksíþróttafólk geti nú hvílt sig á milli æfinga í stað þess að vera að þjálfa eða leita annarra leiða til þess að lifa af," sagði Ragna.
„Það eru margir sem detta út á þessum árum. Ég var alveg ákveðin í því að halda áfram þrátt fyrir að lifa nánast eins og munkur fjárhagslega. Þetta var minn draumur og ég hélt áfram. Það eru margir sem sjá ekki fram á það að geta þetta og hætta kannski á mjög mikilvægum tímapunkti. Þetta er fólk sem við hefðum getað séð blómstra í framtíðinni," sagði Ragna.
„Þessi samningur gerir vonandi okkar afreksíþróttafólki kleyft að verða betri í sinni íþrótt sem það dreymir um. Við fáum um leið fleiri fyrirmyndir, góða landkynningu og góða stemmningu í landið. Þetta er skref í rétta átt og mér finnst við þurfum að skapa þetta umhverfi í kringum afreksíþróttafólkið okkar," sagði Ragna.
„Mér finnst líka, og örugglega mörgum öðrum líka, að þjóðin þarf á þessum afreksíþróttamönnum að halda. Vonandi verða þeir fleiri og betri í framtíðinni," sagði Ragna að lokum. Hún hlaut mikið klapp fyrir enda hitti hún þarna naglann beint á höfuðið.
Ragna: Ákveðin í því að halda áfram þrátt fyrir að lifa nánast eins og munkur
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


Sveinn Margeir mögulega ekkert með Víkingum í sumar
Íslenski boltinn

„Tilefnið stórt og sterkt að landa sigri“
Körfubolti


Asensio skaut Villa áfram
Enski boltinn


Albert kom við sögu í naumum sigri
Fótbolti

„Ákveðnir í því að gefa þeim enga von“
Körfubolti

Embiid frá út leiktíðina
Körfubolti

Fleiri fréttir
