Grindavík og Huginn skildu jöfn, 2-2, í síðasta leik kvöldsins í Inkasso-deildinni.
Leiknum seinkaði talsvert vegna bilunar í fluggagnakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Hann hófst ekki fyrr en klukkan 20:40.
Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og á 16. mínútu kom Björn Berg Bryde þeim í forystu. Hún entist þó aðeins í átta mínútur því á 24. mínútu jafnaði Pétur Óskarsson metin með skalla eftir aukaspyrnu Ingólfs Árnasonar.
Aftur liðu átta mínútur á milli marka en á 32. mínútu skoraði Jaime Jornet Guijaarro fallegt mark og kom gestunum í 1-2.
Grindvíkingar sóttu stíft í seinni hálfleik og þeir fengu vítaspyrnu á 72. mínútu þegar Alexander Veigar Þórarinsson var felldur í teignum. Andri Rúnar Bjarnason tók spyrnuna en Atli Gunnar Guðmundsson varði frá honum.
Heimamenn sóttu án afláts síðustu mínúturnar og pressan bar loks árangur á þriðju mínútu uppbótartíma þegar Alexander Veigar skallaði fyrirgjöf Gunnars Þorsteinssonar í netið. Þetta var áttunda mark Alexanders Veigars í sumar en hann er markahæstur í Inkasso-deildinni. Lokatölur 2-2 í hörkuleik.
Grindavík er enn í 2. sæti deildarinnar, nú með 25 stig, fjórum stigum á eftir toppliði KA sem tapaði fyrir Haukum í kvöld.
Huginn er hins vegar í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með 10 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá fótbolta.net og úrslit.net.
Alexander Veigar bjargaði stigi fyrir Grindvíkinga

Tengdar fréttir

Fyrsti sigur Fram í mánuð | Þórsarar í frjálsu falli
Þrjú mörk og tvö rauð spjöld litu dagsins ljós þegar Fram og Þór áttust við í Laugardalnum í kvöld. Þetta var fyrsti leikurinn í 13. umferð og höfðu heimamenn betur, 2-1.

Haukar með fullt hús gegn KA | Mikilvægur sigur HK
Fjórum leikjum í 13. umferð Inkasso-deild karla er lokið.