Golf

Fimm jöfnuðu sólarhringsgamalt vallarmet og Axel er í forystu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Bóasson.
Axel Bóasson. Vísir/GSÍ
Axel Bóasson úr Keili er með eins höggs forskot eftir annan daginn á Íslandsmótinu í golfi sem fer fram þessa dagana á á Jaðarsvelli á Akureyri.

Axel Bóasson hefur leikið tvo fyrstu dagana á fjórum höggum undir pari og er með eitt högg í forskot á þá Rúnar Arnórsson úr GK, Birgi Leif Hafþórsson úr GKG og Gísla Sveinbergsson úr GK sem allir hafa leikið fyrstu 36 holurnar á þremur höggum undir pari.

Axel Bóasson var einn af fimm kylfingum sem jöfnuðu vallarmet Arons Snæs Júlíussonar frá því í gær þegar hann lék á 67 höggum og náði tveggja stiga forystu.

Hinir sem léku líka á 67 höggum í dag og jöfnuðu met Arons eru þeir Rúnar Arnórsson, Gísli Sveinbergsson, Andri Már Óskarsson og Arnór Ingi Finnbjörnsson.

Aron Snær Júlíusson náði ekki alveg að fylgja gærdeginum eftir og þurfti sex fleiri högg til að klára í dag. Hann er samt í 5. til 8. sæti með þeim Andra Má Óskarssyni úr GHR og Guðmundi Ágústi Kristjánssyni úr GR.

Axel Bóasson var reyndar á parinu eftir fyrri hringinn í dag en þá fór strákurinn í stöð og fékk fjóra fugla á síðustu níu holunum. Axel náði alls sex fuglum á hringnum sem er frábær árangur.

Birgir Leifur Hafþórsson er í 2. til 4. sæti en hann er eini kylfingurinn sem hefur leikið báða hringina á undir pari. Birgir Leifur var á einu höggi undir pari í dag en á tveimur höggum undir pari í gær.

Staðan í meistaraflokki karla eftir tvo daga:

1. Axel Bóasson, GK -4

2. Rúnar Arnórsson, GK -3

2. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG -3

2. Gísli Sveinbergsson, GK -3

5. Andri Már Óskarsson, GHR -2

5. Aron Snær Júlíusson, GKG -2

5. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR -2

8. Bjarki Pétursson, GB -1

9. Kristján Benedikt Sveinsson, GA Par

9. Aron Bjarki Bergsson, GKG Par


Tengdar fréttir

Sögubækurnar bíða Birgis Leifs

Birgi Leifi Hafþórssyni og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur er spáð Íslandsmeistaratitlinum í höggleik en mótið hefst á Jaðarsvelli á Akureyri í dag. Vinni Birgir verður hann sigursælastur í sögunni.

Ólafía Þórunn: Ég er alltaf að læra betur á völlinn

Það stefnir í æsispennandi keppni í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi sem hófst í dag á Jaðarsvelli á Akureyri en það munar aðeins tveimur höggum á efstu þremur konunum eftir fyrstu átján holurnar.

Aron Snær: Þessi hringur kemur mér ekkert á óvart

Aron Snær Júlíusson úr GKG er með tveggja högga forskot að loknum fyrsta keppnisdeginum á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni en hann setti nýtt glæsilegt vallarmet í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×