Erlent

Trump ýjar að því að varðmenn annars viðauka gætu drepið Hillary Clinton

Atli Ísleifsson skrifar
Frá kosningafundi Donald Trump í Norður-Karólínu.
Frá kosningafundi Donald Trump í Norður-Karólínu. Vísir/Getty
Bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump ýjaði að því að „annars viðauka fólk“ gæti mögulega komið í veg fyrir að Hillary Clinton skipi óæskilega hæstaréttardómara, verði hún kjörin forseti.

Trump lét orðin falla á kosningafundi í Wilmington í Norður-Karólínu, en með orðum sínum um „annan viðauka“ er hann að vísa í annan viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar sem heimilar Bandaríkjamönnum að bera vopn.

„Ef hún fær að velja dómarana sína, er ekkert sem þið getið gert í því,“ sagði Trump, áður en hann hélt áfram: „En „annars viðauka fólkið“ – kannski gætu það. Ég veit það ekki.“

Einungis átta dómarar eiga nú sæti í hæstarétti Bandaríkjanna eftir að hinn íhaldssami Antonin Scalia féll frá í febrúar síðastliðinn.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt dómarann Merrick Garland, en Bandaríkjaþing, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, hefur enn ekki greitt atkvæði um skipunina og vilja að næsti forseti skipi níunda dómarann.

Í frétt Guardian er haft eftir kosningastjóra Hillary Clinton að orð Trump séu hættuleg og að sá sem sækist eftir að gegna forsetaembætti eigi ekki að ýja að ofbeldisverkum líkt og Trump gerði í ræðu sinni.


Tengdar fréttir

Sigurlíkur Clinton aukast gríðarlega

Hillary Clinton leiðir í nánast öllum skoðanakönnunum á landsvísu í Bandaríkjunum. Líkur hennar á sigri hafa margfaldast á nokkrum dögum.

Trump boðar breytingar á skattkerfinu

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblíkana, ætlar að fá tannhjól bandaríska hagkerfisins til að snúast hraðar með því að fækka reglugerðum og lækka skatta á fyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×