Bílarnir verða fljótari og flottari samkvæmt tvöfalda heimsmeistaranum. Meðal markmiða reglubreytinganna fyrir næsta tímabil var að gera bílana reffilegri í útliti. Ætlunin er að þeir setji ný brautarmet í sem flestum keppnum og bæti þau töluvert.
Breiðari og betri dekk í samstarfi við aukið niðurtog munu eiga stóran hluta í því að það takist. Ásamt framþróun vélanna.
Alonso sagði nýlega að árið 2017 yrði úrlitaár um áframhaldandi akstur hans í Formúlu 1. Alonso segist búast við því að fá sömu gleðina út úr því að aka bílum næsta árs og hann upplifði á sínu fyrsta ári í Formúlu 1 sem var 2001.
„Með nýju reglugerðinni sem tekur gildi á næsta ári munum við væntanlega fá spennuna aftur. Bílarnir verða töluvert meira aðlaðandi og miklu hraðari,“ sagði Alonso í samtali við opinbera heimasíðu Formúlu 1.
Aðspurður hvort hann yrði spenntur að keyra Formúlu 1 bíl aftur á næsta ári svaraði Alonso: „Já vegna þess að breytingin þýðir að maður verður spenntur að hoppa um borð. Ég geri ráð fyrir að finna sömu ánægju og ég fann í upphafi F1 ferilsins.“