Íslenski boltinn

Milos: Þetta var ekki boðleg frammistaða

Smári Jökull Jónsson skrifar
Milos Milojevic þjálfari Víkinga var eðlilega niðurlútur eftir 7-0 tapið gegn Val í kvöld. Hans menn voru teknir í kennslustund af Valsmönnum og spiluðu án efa sinn versta leik í afar langan tíma.

„Þetta er ekki boðleg frammistaða og úrslitin í samræmi við það. Einn mjög klókur þjálfari sagði að það væri betra að tapa einu sinni 7-0 en sjö sinnnum 1-0. En engu að síður er þetta ekki góð auglýsing fyrir liðið eða félagið og menn voru ekki tilbúnir,“ sagði Milos í samtali við Vísi að leik loknum.

„Ég óska Valsmönnum til hamingju með þrjú stig og bikarmeistaratitilinn. Þeir voru sprækari, vildu þetta meira og voru einfaldlega betri en við. Sum mörk voru í ódýrari kantinum en hvað á maður að segja þegar maður tapar 7-0? Ég bara óska þeim til hamingju,“ bætti Milos við.

Staðan í hálfleik var 2-0 og Víkingar áttu þá enn góða möguleika á að koma sér inn í leikinn að nýju. Mark Valsmanna eftir 35 sekúndur í seinni hálfleik gerði hins vegar út um þá von.

„Mér fannst við eiga möguleika þegar við fáum dauðafæri í fyrri hálfleik í stöðunni 2-0. Ég sagði við strákana í hálfleik að við þyrftum að halda haus og fyrst og fremst ekki fá á okkur mark. En þegar staðan er orðin 3-0 og 4-0 þá er lítið að segja annað en að þetta voru lengstu 45 mínútur í lífi mínu.“

Næsti leikur Víkinga er á mánudag gegn ÍBV og ljóst að Milos hefur verk að vinna fram að þeim leik.

„Ég er ennþá svo pirraður og heitur og ég veit ekki hvað skal gera. Ég ætla bara að sofa á því en það er ljóst að það þarf að laga varnarleikinn. Það er númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Milos Milojevic að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×