Rosberg náði í sinn sjötta ráspol á tímabilinu. Verstappen er sá yngsti til að ræsa á fremstu ráslínu. Verstappen mun ræsa á mýkri dekkjum en ökumennirnir í kringum hann. Keppnin verður afar spennandi á morgun.
Í fyrstu lotunni var augljóst að Lewis Hamilton ætlaði ekki að setja of mikið álag á nýju vélina sína. Hann ók einungis þannig að hann þyrfti ekki að fara til dómaranna og óska heimildar til að keppa. Reglan er sú að ef ökumaður tekur ekki þátt eða þá að brautartíminn hans er meira en 107% af hraðasta tímanum þá þarf ökumaðurinn að fá keppnisleyfi hjá dómurum keppninnar.
Sjá einnig: Hamilton færður aftur um 30 sæti á ráslínu.
Í fyrstu lotunni duttu út: Hamilton á Mercedes, Fernando Alonso á McLaren, Esteban Ocon á Manor, Daniil Kvyat á Toro Rosso og Sauber ökumennirnir. Á meðan var Felipe Massa á Williams fljótastur í lotunni rétt á undan Ferrari mönnum.

Ofurmjúku dekkin ollu vandræðum, það var afar heitt og dekkin dugðu varla heilan hring. Ökumenn tóku því afar rólega úthringi og reyndu að nýta allt sem dekkin áttu að gefa.
Síðasta lotan var aldrei í hættu hjá Rosberg. Baráttan var á milli Red Bull og Ferrari um hver kæmist á fremstu röð með Rosberg.