“Ég hef fylgst með Rimac frá stofnun fyrirtækisins,” sagði Gísli eftir komuna til Íslands. Þetta byrjaði allt árið 2008 þegar Króatinn Mate Rimac breytti BMW E30 bílnum sínum í rafmagnssportbíl. Ári síðar stofnaði hann Rimac Automobiliti í Sveta Nedelja í Króatíu.
“Ég fór og hitti hann og Rimac teymið á bílasýningunni í Frankfurt árið 2011, en þar frumsýndi hann fyrsta ofurrafbílinn Concept_One frá Rimac. Árið eftir sló bíllinn 5 Guinnes met og FIA heimsmet sem hraðskreiðasti rafbíllinn.”
Árið 2013 átti sér stað mikil tæknivinna og þróun á bílnum og árið 2014 var Concept_One bíllinn valinn til að keyra á kappasktursbrautunum á undan bílunum hjá Formúlu E mótaröðinni. Rimac kynnti síðan lokaafurðina af Concpt_One í Pebble Beach um síðustu helgi og voru með sér kynningu á bílnum á búgarði í Carmel.
Gísla var boðið á búgarðinn til að prufukeyra bílinn. “Þetta var óraunverulegt. Bíllinn er 2,6 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km hraða og 6,2 í 200. Ég fékk að spyrna við Porsche 911 Turbo vel tjúnaðan bíl og hann var algjörlega skilinn eftir. Átti aldrei möguleika. Það er ótrúlegt að króatískt fyrirtæki sem kynnti fyrsta bílinn fyrir 5 árum sé búið að framleiða rafbíl sem pakkar saman tækni sem búin er að vera í þróun í yfir 100 ár”.
Rimac Concept_One er ótrúlega tæknilega fullkominn bíll og stjórnatölva í bílnum les til dæmis stöðu hvers hjóls 1.000 sinnum á sekúndu og breytir henni til aukins stöðugleika. Bíllinn er 1.088 hestöfl og með hrikalegt 1.600 Nm tog. Hann er með hámarkshraðann 355 km/klst og kemst 330 kólómetra á hverri hleðslu.

