Erlent

Verðandi sendi­herra grínaðist með að Ís­land yrði 52. ríkið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Billy Long til vinstri við hlið Donald Trump á góðri stundu árið 2019.
Billy Long til vinstri við hlið Donald Trump á góðri stundu árið 2019. EPA/MICHAEL REYNOLDS

Væntanlegur sendiherra Bandaríkjanna hér á landi og fyrrverandi þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings grínaðist með það við þingmenn í gær að Ísland yrði 52. ríkið og að hann yrði ríkisstjóri. Í þinginu eru nú stíf fundarhöld um fjárlög þar sem menn róa öllum árum að því að koma í veg fyrir aðra lokun ríkisstofnana.

Það er bandaríski vefmiðillinn Politico sem greinir frá brandara fyrrverandi þingmannsins og skattstjóra Billy Long. Greint var frá því í ágúst í fyrra að Bandaríkjastjórn hefði tilnefnt Long en enn virðist þó langur vegur í það að hann verði skipaður í sendiherrastöðuna. Öldungadeild þarf að taka tilnefninguna fyrir og í þinginu er málalistinn langur og ekki útséð um það hvenær skipunin verður tekin fyrir.

Í umfjöllun Politico er lesendum boðið góðan daginn í fyrstu færslu í vakt þar sem fylgst er með stöðu mála á þinginu. Þar er vitnað til orða Long en líkt og lesendur Vísis vita flestir er mikill titringur í alþjóðamálum þessa dagana vegna yfirlýsinga Bandaríkjastjórnar um vilja þeirra til yfirráða yfir Grænlandi.

„Við heyrðum að fyrrverandi þingmaðurinn Billy Long, sem Trump tilnefndi sem sendiherra á Íslandi, hafi grínast við þingmenn í gærkvöldi og sagt að Ísland yrði 52. ríki Bandaríkjanna og hann yrði ríkisstjóri,“ segir í fyrstu færslu Politico á þessum miðvikudagsmorgni. 

Long er íhaldssamur repúblikani sem tók fyrst sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir heimaríki sitt Missouri árið 2011. Þar sat hann í sex kjörtímabil til 2023. Áður hafði hann meðal annars unnið sem uppboðshaldari og fasteignasali á heimaslóðum.

Hinn 69 ára gamli verðandi sendiherra var skattstjóri Bandaríkjanna í innan við tvo mánuði, skemur en nokkur annar í sögu stofnunarinnar. Dagana áður en Long var sparkað frá skattinum hafði slegið í brýnu á milli stofnunarinnar og Hvíta hússins vegna upplýsinga sem það falaðist eftir til þess að hafa hendur í hári fólks sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum. 

Hafði Long sagt að stofnun hans ætlaði ekki að afhenda persónuupplýsingar skattgreiðenda umfram samkomulag við heimavarnarstofnun Bandaríkjanna. Aldrei lá þó fyrir hvort þrætan hafi orðið til þess að hann var settur af.

Long er einkar litríkur karakter. Það sást meðal annars í gamansamri færslu hans á samfélagsmiðlum eftir að hann var tilnefndur sendiherra á Íslandi. Þar gerði að því skóna í gríni að forsetinn hefði misskilið ósk hans um að fá að ganga til liðs við ICE, innflytjendastofnun Bandaríkjanna, og sent hann til Íslands í staðinn.


Tengdar fréttir

Vaktin: Mikilvæg fundarhöld í Washington

Utanríkisráðherrar Grænlands, Danmerkur og Bandaríkjanna, auk varaforseta Bandaríkjanna, munu funda í Washington DC í dag. Þar stendur til að ræða málefni Grænlands en Bandaríkjamenn hafa ekki verið feimnir við að segja að þær girnist Grænland. Donald Trump, forseti, hefur sagt að Bandaríkin muni eignast Grænland með góðu eða illu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×