Golf

Bandarískur golfdólgur pakkaði Stenson saman og græddi 200 dali | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dave Johnson tók evrópsku kylfingana í bakaríið.
Dave Johnson tók evrópsku kylfingana í bakaríið. vísir/getty
Ryder-bikarinn hefst ekki fyrr en á morgun í Minnesota í Bandaríkjunum en einn stuðningsmaður bandaríska liðsins tók forskot á sæluna er hann fylgdist með æfingu evrópska liðsins í dag.

Maður að nafni Dave Johnson var að fylgjast með Svíanum Henrik Stenson, sigurvegara opna breska mótsins í ár, og Justin Rose, æfa sig á púttflöt og var með dólg.

Johnson var mest að angra Englendinginn Justin Rose sem var að undirbúa sig fyrir að setja niður þriggja metra pútt. Stenson ákvað að koma félaga sínum til varnar og gekk á bandaríska golfdólginn.

Svíinn skoraði á Johnson að setja púttið sjálfur niður og bauð honum 100 dali ef hann gæti gert það. Johnson var fljótur út á flötina í rauðri flíspeysu og mokkasíum. Það þurfti ekki að bjóða honum þetta tvisvar.

Justin Rose lagði einnig fram 100 dali ef hann bandaríski stuðningsmaðurinn gæti sett niður púttið sem hann auðvitað gerði við mikla kátinu fjöldans sem var að fylgjast með æfingunni.

Rory McIlroy var einnig á staðnum og tók myndband sem hann setti á Twitter. Hann skrifaði við færsluna: „Er Ryder-bikarinn byrjaður?“

Myndband af þessu geggjaða atviki frá NBC-sjónvarpsstöðinni og Rory má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×