Fjölnir varð í gær bikarmeistari í 2. flokki karla í fótbolta eftir 3-1 sigur á Keflavík/Njarðvík.
Þetta er annað árið í röð sem Fjölnir verður bikarmeistari í 2. flokki. Margir af þeim strákum sem tóku þátt í að vinna bikarkeppni 2. flokks undanfarin tvö ár urðu einnig bikarmeistarar í 3. flokki 2014.
Keflavík/Njarðvík byrjaði leikinn betur og komst yfir með marki Adams Árna Þorsteinssonar eftir 15 mínútur. Djordje Panic jafnaði metin í 1-1 á 37. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Þegar 14 mínútur voru til leiksloka kom Ægir Jarl Jónasson Fjölni yfir og á 83. mínútu skoraði hann svo sitt annað mark úr vítaspyrnu og gulltryggði sigur Grafarvogsliðsins.

