„Veðrið er svo sem búið að ná hámarki á suðvesturhorninu þannig lagað séð. Það náði því tiltölulega snemma í morgun. Það verður nánast óbreytt fram á kvöld þar til það fer að lægja, það koma alltaf smá kaflar inn á milli þar sem það virðist vera að lægja en það er ekki að sjá neina breytingu fyrr en í kvöld,“ segir Óli Þór.
Hann telur að lægja taki um og eftir klukkan 21 yst á Reykjanesi og um klukkan 22 á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður segir Óli veðrið líklega verst við Hafnarfjall en þar hefur vindhraði náð allt að þrjátíu metrum á sekúndu.
Veðrið verður með betra móti á morgun, en í kjölfarið taka við tvær lægðir. „Það verður ágætis veður víðast hvar á morgun. Það er einna helst á Suðausturlandi þar sem veður verður frekar vætusamt en töluvert hægari vindur en í dag. Síðan eru tvær lægðir fram að helgi. Þær gefa okkur ekki svona hvassan vind eins og í dag en allhvassan vind með rigningu inn á milli. Þetta eru sunnan- og suðaustanáttir, það verður úrkomulítið og hægari vindur fyrir norðan á meðan við á höfuðborgarsvæðinu fáum mestu rigninguna og mesta vindinn,“ segir Óli.
Vegagerðin og Veðurstofan hafa varað vegfarendur við snörpum vindhviðum á nokkrum stöðum, en ekki er vitað um slys eða alvarleg óhöpp enda lítil umferð á vegum. Þá hefur innanlandsflug legið niðri í allan morgun vegna óveðursins. Eitthvað hefur verið um að lausamunir hafi verið að fjúka um, einkum suðvestanlands.
Hér fyrir neðan má fylgjast með lægðinni.