Skipun samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga ætti að liggja fyrir í seinasta lagi á laugardag. Þetta staðfestir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samtali við fréttastofu.
Alþingi samþykkti þann 13.september síðastliðin lög um breytingar á búvörulögum og fleiri lögum vegna búvörusamninganna. Í bráðabirgðaákvæði í lögunum segir: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019.“
Félag atvinnurekenda vakti athygli á því að ekki væri búið að skipa samráðshópinn en lögbundinn frestur til þess rann út í gær. Ýmsum hagsmunasamtökum sem gagnrýndu búvörusamningana fyrr á árinu var lofað aðild að samráðshópnum og er Félag atvinnurekanda á meðal þeirra.
Ákvæðið um stofnun samráðshópsins kom inn í lögin að tillögu meirihluta atvinnuveganefndar þingsins en Jón Gunnarsson veitir nefndinni forystu. Í júlí síðastliðnum sagði Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, að hann vonaðist eftir því að þjóðarsátt næðist um búvörusamningana með þeim breytingum sem lagðar voru fyrir þingið.

