Ástæða biðarinnar hefur ekki verið gefin upp, en hennar gæti verið að leita í þeirri staðreynd að krónprinsinn er og hefur lengi verið afar umdeildur í Taílandi.

Sonurinn Vajiralongkorn hefur aftur á móti reglulega komist í fréttir fyrir glaumgosalíf og ýmsan galgopahátt. Almenningur er sagður bera litla virðingu fyrir honum og ráðamenn hafa haft áhyggjur af því að hann verði konungur.
Vajiralongkorn er að vísu orðinn 64 ára og kannski tekinn að róast, en hneykslismálin fylgja honum. Hann er þrígiftur og á samtals sjö börn, þar af fimm með annarri eiginkonu sinni, en þau fæddust öll á meðan hann var enn kvæntur fyrstu eiginkonunni. Hjónaband númer tvö entist þó aðeins í tvö ár og endaði með því að hann rak konuna úr landi.
Krónprinsinn skildi við þriðju eiginkonu sína árið 2014 eftir að nokkrir ættingjar hennar voru handteknir og sakaðir um fjármálaspillingu. Hún sjálf varð alræmd í Taílandi fyrir að ganga um hálfnakin í mikilli afmælisveislu sem haldin var fyrir hund krónprinsins. Sá hundur er síðan sagður hafa verið gerður að yfirmanni í hernum.
Enginn vafi leikur á því að Vajiralongkorn á fullan rétt til konungstignar í Taílandi, nú þegar faðir hans er látinn.
Bhumipol konungur hafði sjálfur gefið það út formlega að Vajiralongkorn eigi að verða konungur, en samkvæmt lögum hefur konungurinn einn heimild til þess að svipta krónprins rétti til konungstignar.
Nærri vika er samt liðin frá andláti Bhumipols og töfin veldur furðu. Opinberlega er Vajiralongkorn sjálfur sagður hafa óskað eftir því að bíða með að taka við konungstigninni, þangað til hann sé tilbúinn, eins og það er orðað í tilkynningu frá konungshöllinni.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.