Veigar Páll spilaði síðustu fjögur tímabil með Stjörnunni og varð Íslandsmeistari með liðinu 2014. Hann byrjaði aðeins þrjá leiki á síðustu leiktíð en skoraði engu að síður fimm mörk í 17 leikjum.
„Fyrst og fremst er hann frábær fótboltamaður. Það vita allir að Veigar er frábær í fótbolta en hinsvegar er hann líka mjög sterkur og stór karakter þannig hann mun hjálpa okkur á fleiri stöðum en bara inn á fótboltavellinum,“ sagði Ólafur Páll Snorrason, aðstoðarþjálfari FH, við Vísi í dag en hann sat blaðamannafundinn með Veigari.
Sjá einnig:Veigar Páll: Staða mín hjá Stjörnunni hefði versnað
Veigar Páll mun samhliða því að spila með FH þjálfa í afreksskóla félagsins en FH-ingar ætla honum stóra hluti í framtíðinni og ekki bara inn á vellinum.
„Hluti af komu hans hingað er við sjáum í framtíðinni fyrir okkur að hann verði öflugur þjálfari. Hann tekur að sér ákveðið hlutverk í afreksskóla FH. Það eru upphafið en vonandi ílengist hann inn á vellinum líka,“ sagði Ólafur Páll.

Ólafur Páll segir FH vera að vinna í sínum leikmannamálum en liðið hefur engan misst og engan fengið fyrir utan Veigar Pál.
„FH er engin undantekning er varðar að leita sér að leikmönnum á þessum tíma árs. Við erum að vinna í nokkrum málum og vonandi ganga hlutirnir upp á næstu dögum eða vikum,“ sagði hann.
„Það eru ekki margir leikmenn á lausu en þetta er alltaf eins. Þeir sem eru lausir skoða sína mál og velja svo og hafna.“
FH-liðið átti í vandræðum með að skora mörk á síðustu leiktíð en liðið skoraði aðeins 32 mörk á leið sinni að Íslandsmeistaratitlinum.
„Við eigum eftir að sjá hvort einhverjir yfirgefi FH-liðið og hvort við þurfum þá að styrkja þann hluta leikmannahópsins. Við erum með skýra sýna á það sem við ætlum að reyna að vinna í þennan veturinn og eitt af því er að skora fleiri mörk. Það er líka ein af þeim ástæðum að Veigar er mættur,“ sagði Ólafur Páll Snorrason.