Kristófer Sigurgeirsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari Leiknis Reykjavíkur í Inkasso-deildinni í fótbolta en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Kristófer tekur við starfinu af Kristjáni Guðmundssyni sem yfirgaf Breiðholtsliðið eftir eitt ár í starfi en undir hans stjórn endaði Leiknir í sjöunda sæti deildarinnar. Kristján tók við liði ÍBV um helgina.
Leiknisliðið verður nú undir stjórn þriðja þjálfarans á síðustu þremur árum en Freyr Alexandersson og Davíð Snorri Jónasson voru með liðið í Pepsi-deildinni í fyrra en létu af störfum eftir að það féll.
Kristófer var aðstoðarþjálfari Arnars Grétarssonar hjá Breiðabliki undanfarin tvö ár auk þess sem hann var yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks á síðasta ári. Hann hefur einnig þjálfað hjá Fjölni, HK og Reyni Sandgerði.
„Leiknismenn hlakka til samstarfsins og vænta mikils af störfum Kristófers sem þjálfara Leiknis á komandi misserum. Við bjóðum Kristófer virkilega velkomin í Leikni og efra-Breiðholtið,“ segir á heimasíðu Leiknis.
Kristófer tekur við Leikni

Tengdar fréttir

Kristján tekur við ÍBV
Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍBV sem leikur í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Kristján: Deildin verður sterkari á næsta ári
Kristján Guðmundsson var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu til næstu þriggja ára.