Manchester United skortir einkenni og því mun Liverpool hafa betur í stórslag liðanna á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Þetta segir Paul Scholes, fyrrum leikmaður United, en sem stendur er liðið í sjöunda sæti delidarinnar, þremur stigum á eftir Liverpool.
„Ef maður myndi veðja á leikinn myndi maður veðja á Liverpool,“ sagði Scholes í samtali við BBC.
Hann segir að Jose Mourinho, sem tók við United í sumar, hafi ekki enn fundið sitt sterkasta byrjunarlið en hann hefur notað fimmtán mismunandi útileikmenn í byrjunarliðum sínum í fyrstu sjö deildarleikjum tímabilsins.
„Hann var ekki nógu ákveðinn á undirbúningstímabilinu. Það er of mikill ruglingur á því hver eigi að spila,“ sagði Scholes.
„Þegar ég fylgdist með honum hjá Chelsea var hann með 13-14 leikmenn sem spiluðu um hverja helgi. Það mun taka United tíma að slípa liðið saman og ég tel að liðið skortir enn einkenni.“
Upphitunarmyndband fyrir leik kvöldsins má sjá í spilarnaum hér fyrir ofan.
