Harpa Hlín veiðir og veiðir, er bæði í stang- og skotveiði. Og í vikunni felldi hún 270 kílóa elg í Eistlandi. Það má heita væn bráð. Í samanburði má nefna að 100 – 120 kílóa hreindýr þykir vænt og stærsta bráð sem menn komast í tæri við á Íslandi.
Þurftu að flýta sér í Spa-ið
Harpa Hlín er nú stödd ásamt fjórum vinkonum sínum í Eistlandi þar sem þær hafa verið við veiðar. Harpa rekur sérhæfða ferðaþjónustu fyrir veiðimenn sem heitir Iceland Outfitters en í fyrra stofnaði hún svo sérstakan kvennaveiðihóp ásamt Elsu Blöndal og Maríu Önnu Clausen sem kalla sig T&T International.
„Við vorum 5 sem vorum að klára „prívat hunt“ í dag og veiddum 5 elgi og 4 rádýr. En, svo er alþjóðlegur kvennaveiðidagur á morgun (laugardag 22. nóvember) þar sem eru 56 konur fara saman í rekstrarveiði.“

Seinna í samtalinu bárust svo upplýsingar um að elgurinn var myndarlegur, 270 kíló með öllu en skrokkurinn 180 kíló. Harpa Hlín hefur vitaskuld farið á hreindýraveiðar á Íslandi, sem margir íslenskir skotveiðimenn þekkja, sem og reyndar á Grænlandi og hún segir þetta mjög frábrugðið því. Þetta er náttúrlega skógarveiði. Hún skaut elginn stóra af 150 metra færi með Blazer 30/06.
„Við fórum í stalk- og prívatrekstrarveiði. Það komu engin dýr í rekstrarveiðinni en í „stalkinu“ þá sáum við slatta af dýrum en það er ekki alltaf sem við komumst í færi.“
Bragðast eins og blanda af nauta- og hreindýrakjöti
Hún segir að þau séu með góða leiðsögumenn en engu að síður er það svo að þær standa að mestu í veiðinni sjálfar. Af ýmsum ástæðum meðal annars þeirri að það heyrist tvisvar sinnum meira í einum en tveimur þegar farið eru um. „Stalk er þegar maður keyrir og/eða gengur um skóginn í leit að dýrum. Ég var til dæmis ein þegar ég skaut elginn en guid-inn var svona 300 metra fyrir aftan mig.“
Lögum samkvæmt er óheimilt að flytja villibráðina milli landa en þær fá hausana senda til Íslands þegar búið er að verka þá. „Svo erum við ekki búnar að borða neitt annað en elg og aðra villibráð þessa daga sem við höfum verið hér.“
Vísir bað Hörpu Hlín um að lýsa því hvernig elgur bragðast?
„Hann líkist hreindýri á bragðið en er meira eins og nautakjöt, það er áferðin á því.“

Vill ekki vera teiknuð upp sem einhver kvenhetja
Gripdeild bar þetta undir Hörpu Hlín, þá þetta að ýmsir sem vilja finna æðri merkingu í sportveiðinni segja að hún höfði til einhvers sem megi finna í frumeðli mannsins, veiðisamfélagsins sem byggði á því að karlinn fór út til veiða en konan var að gæta heimilisins – og var þá meiri safnari í eðli sínu. Sú staðreynd að konur eru í auknum mæli farnar að sækja í veiðina kollvarpar slíkum hugmyndum eða að þær setja punkt aftan við þessa tilteknu þróun mannkyns. Má kannski segja að þetta sé hápunktur kvenfrelsisbaráttunnar?
„Hmmm,“ segir Harpa Hlín og ljóst að henni finnst þetta ekkert sérlega skemmtileg spurning. „Ekki nota mig sem einhverja kvenhetju. En, ég held að við njótum þess að fara á veiðar jafnvel og karlmenn. En við í T&T búum til ferðir sem okkur langar að fara í: Góða veiði, á góðu verði, í góðri gistingu með góðum mat, dekri og í frábærum félagsskap.“
Hún segir að það hafi vantað opinn félagsskap sem er eingöngu fyrir konur sem hafa áhuga á veiði. Og nú er hann til. „Við erum búnar að fara núna 2 til Eistlands og einu sinni til til Skotlands. Við erum allar búnar að bóka okkur aftur til Skotlands í maí og förum að öllum líkindum til Eistlands aftur að ári.“
Þetta viðtal við Hörpu Hlín birtist fyrst á Gripdeild, sem Vísir á í samstarfi við um veiðiumfjöllun.