Lífið

Býður reiðum pönkurum sófapláss

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Rapparinn Lord Pusswhip heldur tónleika í Norðurkjallara í kvöld.
Rapparinn Lord Pusswhip heldur tónleika í Norðurkjallara í kvöld. Vísir/Eyþór
Rapparinn Lord Pusswhip heldur í kvöld tónleika samhliða Airwaves-hátíðinni, mætti kalla þá off-venue tónleika, þar sem hann spilar ásamt bandarísku hljómsveitinni Show me the body og dauðapönksveitinni Dauðyflin. Tónleikarnir fara fram í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð og hefjast klukkan hálf níu.

„Show me the body er ungt tríó af reiðum pönkurum frá Brooklyn-hverfi í New York en þeir lifa og hrærast í neðanjarðarkreðsu þar ásamt hiphop-böndum eins og Ratking og Jaguar Pyramids.

Þeir spila rappskotið hardcore-pönk og hafa komið fram í skítugum kjöllurum í NY og í MoMA listasafninu. Dauðyflin eru síðan íslenskt dauðapönk, einhvers konar hliðarverkefni hljómsveitarinnar Börn,“ segir Lord Pusswhip, sem heitir réttu nafni Þórður Ingi Jónsson. Hann óskar á Facebook eftir gistingu fyrir þessa reiðu pönkara – kjörið tækifæri fyrir lesendur sem hafa áhuga á að hýsa bandarískar hljómsveitir.

Lord Pusswhip gaf í fyrra út sína fyrstu plötu, Lord Pusswhip is wack, og hefur hún fengið glimrandi dóma. Hann hefur starfað í neðanjarðarsenunni hér heima og erlendis þar sem hann hefur verið duglegur við að ljá röppurum takta og hefur til að mynda gert það fyrir nöfn eins og Antwon, Metro Zu og Bones. Hann spilar annars á föstudaginn á Húrra og Show me the body spila í Norðurljósum á föstudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×