Selfoss heldur áfram að missa leikmenn eftir að liðið féll út Pepsi-deild kvenna í sumar.
Heiðdís Sigurjónsdóttir, varnarmaður úr Selfossliðinu, hefur skrifað undir tveggja ára samning við Breiðablik. Þetta kemur í fréttatilkynningu frá Blikum.
Heiðdís sem er 20 ára gömul hefur undanfarin tvö ár spilað með Selfossi í Pepsí-deild kvenna en hún er alin upp hjá Hetti á Egilsstöðum.
Heiðdís á að baki nítján landsleiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði í þeim tvö mörk. Með Selfossi spilaði hún 37 leiki í deild og bikar 2015 og 2016.
Selfoss hafði áður misst fyrirliða sinn, Guðmundu Brynju Óladóttur, í Stjörnuna. Selfoss féll úr Pepsi-deildinni eftir að hafa verið í efstu deild frá árinu 2012.
Selfoss-liðið hefur verið að semja við unga leikmenn liðsins en hafa nú þegar misst tvo lykilmenn í topplið deildarinnar.
