Erlent

Merkel viðurkennir að ekki verði samið um TTIP úr þessu

Atli Ísleifsson skrifar
Eftir heimsókn sína til Þýskalands mun Barack Obama halda í opinbera heimsókn til Perú.
Eftir heimsókn sína til Þýskalands mun Barack Obama halda í opinbera heimsókn til Perú. Vísir/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að eftir að ljóst varð að Donald Trump yrði næsti forseti Bandaríkjanna liggur fyrir að viðræður um fríverslunar- og fjárfestingasamstarf ESB og Bandaríkjanna (TTIP) verði ekki kláraðar.

Merkel lét orðin falla á sameiginlegum fréttamannafundi hennar og Barack Obama Bandaríkjaforseta í Berlín í dag.

Merkel sagði viðræðurnar hafi gengið vel en að þeim yrði ekki lokið úr þessu. Hún og Obama sögðust þó bæði vona að fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjunum verði að veruleika þegar fram í sækir.

Obama og Merkel hafa staðið þétt saman á alþjóðavettvangi á síðustu árum og þakkaði Obama henni sérstaklega fyrir samstarfið. „Ég vil þakka minni kæru vinkonu og bandamanni, Angelu Merkel. Þegar ég lít aftur til síðustu átta ára gæti ég ekki hugsað mér betri samstarfsfélaga á hinum alþjóðlega vettvangi,“ sagði Obama.

Merkel tók í svipaðan streng. „Takk fyrir vináttuna. Við höfum saman gengið í gegnum erfið mál,“ sagði Merkel og þakkaði svo Obama ítrekað fyrir samstarfið. Hún sagðist þó vona að hún gæti einnig átt gott samstarf með Trump.

Þau Obama og Merkel ræddu einnig ástandið í Úkraínu og lögðu bæði áherslu á nauðsyn þess að viðhalda viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi þar til öll skilyrði Minsk-sáttmálans séu uppfyllt. Obama þrýsti einnig á Trump að „standa uppi í hárinu á Rússum“ þegar þeir breyta gegn bandarískum gildum og alþjóðlegum normum.

Eftir heimsókn sína til Þýskalands mun Obama halda í opinbera heimsókn til Perú, en hann lætur af embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×