Körfubolti

Skrifað um kvikmyndabrosið hans Hauks í frönskum fjölmiðlum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson fagnar sigri í leik með  íslenska landsliðinu.
Haukur Helgi Pálsson fagnar sigri í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Bára
Haukur Helgi Pálsson fær mikið hrós fyrir frammistöðu sína með Rouen í síðustu umferð frönsku b-deildarinnar.

Stuðningsmenn Rouen hafa þurft aðeins að bíða eftir því að Haukur Helgi sýni sitt allra besta enda hefur strákurinn verið óheppinn með meiðsli í byrjun tímabilsins.

Haukur Helgi var hinsvegar í ham um helgina þegar hann hjálpaði Rouen að vinna tíu stiga sigur á Bourg-en-Bresse 80-70. Þetta voru afar nauðsynleg stig fyrir Rouen sem er enn í neðsta sæti deildarinnar.

Blaðamaður staðarblaðsins Paris-Normandie hefur grein sína á því að tala um „Stóra ljóshærða strákurinn á bláu skónum“ en þar segir að Haukur sé loksins laus við meiðslin.

Blaðamaðurinn heldur áfram ljóðrænni lýsingu sinni á Hauki og hrósar honum ekki aðeins fyrir frammistöðuna inn á vellinum heldur einnig fyrir bíóbrosið sitt.

„Hann kemur með ró inn í liðið,“ segir þjálfarinn Rémy Valin. „Hann er yfirvegaður og kemur með sjálfstraust inn í liðið,“ bætti hann við.

Haukur Helgi hafði verið að glíma við meiðsli á mjöðm í sex vikur en að þessu sinni héldu honum engin bönd.

Haukur endaði leikinn með 20 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar en hann hitti meðal annars úr 6 af 7 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Haukur Helgi var með framlag upp á 23 stig sem er mjög gott.

Það er hægt að lesa umfjöllunina um Íslendinginn með kvikmyndabrosið með því að smella hér.

Haukur Helgi verður aftur í sviðljósinu í kvöld þegar Rouen mætir Fos-sur-Mer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×