Markaðurinn er með stærri jólamörkuðum í Berlín en hann er staðsettur á Breitscheidplatz-torgi steinsnar frá Kurfürstendamm, stærstu verslunargötu borgarinnar.
Lögregluyfirvöld í Berlín hafa staðfest að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Í flutningabílnum voru tveir menn en sá sem sat í farþegasætinu lést meðan á voðaverkinu stóð. Ökumaður bifreiðarinnar komst lífs af og hefur hann verið handtekinn.
Sjá einnig: Utanríkisráðuneytið hvetur Íslendinga í Berlín til þess að láta vita af sér
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu og sendiherra Íslands í Þýskalandi hafa ekki borist fregnir af því að neinir Íslendingar séu í hópi særðra.
Yfirvöld hafa hvatt borgarbúa til þess að halda sig innandyra í kvöld.
Samkvæmt lögregluyfirvöldum er björgunarstarfi á vettvangi lokið en 45 voru fluttir á sjúkrahús í kjölfar árásanna. Rannsókn málsins er þegar hafin og staðfest hefur verið að númeraplata bifreiðarinnar sem notuð var við ódæðið er pólsk. Talið er að flutningabílnum hafi verið stolið af byggingasvæði í Póllandi.
Götunni Rankestraße hefur verið lokað vegna rannsóknarinnar og hafa lögregluyfirvöld staðfest að þar sé verið að rannsaka möguleg sönnunargögn.
Fréttin var síðast uppfærð kl. 23:50
