Magni Böðvar Þorvaldsson, sem ákærður er fyrir morðið á Sherry Prather sem framið var árið 2012, mætti fyrir dóm í Jacksonville í Flórída í gær og kvaðst saklaus. Þá var ákæran einnig lesin upp fyrir Magna.
Magni á íslenskan föður og bandaríska móður og er því með tvöfalt ríkisfang. Í Bandaríkjunum gengur hann undir nafninu Johnny Wayne Johnson.
Í samtali við Fréttablaðið segir Sara Hatt, unnusta Magna, að opinber lögfræðingur hans hafi ekki mætt til réttarhaldanna. Þá svari hann heldur ekki í síma. Hatt segist nauðsynlega þurfa að hitta lögfræðinginn þar sem hún sé með myndir og upptökur sem geti hjálpað málstað Magna.
„Við þurfum hjálp til þess að útvega honum annan lögfræðing. Við höfum ekki efni á því sjálf,“ segir Hatt.
Hún segist einnig hafa sætt ofsóknum eftir handtöku Magna. „Móðir fórnarlambsins veittist að mér í dómsal og spurði mig hvernig væri að vera trúlofuð morðingja.“
Þá segir hún Magna ekki hafa fengið að taka lyf sem hann þarfnist. „Við komumst að því að hjúkrunarfræðingur fangelsisins hafði gefið honum sýklalyf við vandamálum tengdum kólesteróli,“ segir Hatt og bætir því við að það hafi verið leiðrétt í gær.
„Magni hefur verið mjög samstarfsfús allan tímann. Hann hefur hlýtt öllum og ekki angrað neinn. Ég tala við hann daglega og við skrifumst á. Því miður er Magni mjög þunglyndur,“ segir Hatt.
Magni mætir næst fyrir dóm þann 25. janúar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

