Þriðja árið í röð er fullkomið jafnvægi á milli karla og kvenna á listanum, fimm af hvoru kyni fá þann heiður að vera meðal tíu besta íþróttafólks Íslands á þessu ári.
Hér að neðan getur þú kosið þinn íþróttamann ársins.
Sjá einnig: Enginn yfir þrítugu í fyrsta sinn í 33 ár
Eygló Ósk Gústafsdóttir, ríkjandi Íþróttamaður ársins, er ein af þremur á listanum sem hafa hlotið útnefninguna en hinir eru knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson (2013) og handboltamaðurinn Aron Pálmarsson (2012).
Sex líka á listanum í fyrra
Eygló Ósk og Gylfi eru í hópi sex sem voru líka á listanum í fyrra en hin eru sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir, knattspyrnufólkið Aron Einar Gunnarsson og Sara Björk Gunnarsdóttir og svo frjálsíþróttakonan Aníta Hinriksdóttir.
Þrjú eru á topp tíu listanum í fyrsta sinn en það eru kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson og kraftlyftingamaðurinn Júlían J.K. Jóhannsson.
Sjá einnig: Gunnar Nelson íþróttamaður ársins 2015 að mati lesenda Vísis
Reynsluboltar listans í ár eru Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Pálmarsson sem eru á listanum í sjötta sinn. Gylfi er nú á topp tíu listanum fimmta árið í röð. Sara Björk Gunnarsdóttir er nú tilnefnd í fimmta skiptið og er orðin sú knattspyrnukona sem oftast hefur verið á topp tíu listanum en Hrafnhildur Lúthersdóttir jafnar met sundkvenna með því að komast á listann í fjórða sinn.