Meðalvindhraðinn var 52,4 metrar á sekúndu og höfðu um þrjú hundruð og fimmtíu tilkynningar um tjón og skemmdir borist lögreglu í morgun. Fastlega er búist við því að sú tala kunni hækka.
Þök og klæðningar rifnuðu af húsum, bátar slitnuðu frá bryggju, rafmagn fór af stórum svæðum og bílar fuku til og fóru á hliðina.
Í myndbandinu hér að neðan sem Brian Jensen íbúi í Kollafirði tók og Kringvarpið, ríkisfjölmiðill Færeyja, birti á Facebook-síðu sinni má sjá hvar bíll sem lagt er á höfninni fýkur út á sjó í einni hviðunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er veðrið í Færeyjum nú að ganga niður. Það er þó enn nokkuð hvasst en vindur fer minnkandi eftir því sem líður á daginn.