Túnisinn sem er eftirlýstur vegna árásarinnar á jólamarkað í Berlín hafði verið undir eftirliti yfirvalda fyrr á þessu ári.
Maðurinn er 23 ára gamall og heitir Anis Amri. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að hann hafi verið undir eftirliti vegna gruns um að hafa lagt á ráðin um að fjármagna kaup á sjálfvirkum skotvopnum með ráni. Yfirvöld hættu hins vegar rannsókn sinni á Amri vegna skorts á sönnunargögnum.
Áður en hann kom til Þýskalands, þar sem hann sótti um hæli, hafði hann afplánað fjögur ár í fangelsi á Ítalíu vegna íkveikju og átti yfir höfði sér fangelsisvist í Túnis.
Nú er hans leitað víðs vegar um Evrópu.
Handtökuskipun var gefin út á hendur honum eftir að landvistarleyfi hans fannst í vörubílnum sem var ekið inn á jólamarkaðinn í Berlín síðastliðið mánudagskvöld. 12 létu lífið í árásinni og 49 særðust.
Yfirvöld í Þýskalandi hafa heitið 100 þúsund evrum, eða sem nemur tæpum 12 milljónum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku hans.
Hann er talinn hafa notast við sex nöfn í gegnum tíðina og einnig sagst ýmist vera frá Egyptalandi eða Líbanon.
Talið er að hann hafi særst í átökum við bílstjóra vörubílsins. Bílstjórinn fannst látinn í vörubílnum þegar lögreglan kannaði vettvanginn eftir árásina.
Sá sem er grunaður um árásina í Berlín hafði verið undir eftirlit fyrr á árinu

Tengdar fréttir

Árásin í Berlín: Leita að Túnisa á sjúkrahúsunum
Þýskir fjölmiðlar nafngreina manninn, segja hann vera á aldrinum 21 til 23 ára og hafa áður komið við sögu lögreglu.

Túnisinn hafði átt í samskiptum við predikarann Abu Walaa
Umfangsmikil leit stendur nú yfir í Evrópu allri að túnískum manni sem grunaður er um að hafa átt aðild að árásinni á jólamarkaðnum í Berlín.

Umfangsmikil leit að ódæðismanninum í Berlín
Þýska lögreglan leitar árásarmanns sem varð tólf að bana.