Umfangsmikil leit stendur nú yfir í Evrópu allri að túnískum manni sem grunaður er um að hafa átt aðild að árásinni á jólamarkaðnum í Berlín á mánudagskvöld.
Þýskir fjölmiðlar kalla manninn Anis A og segja hann fæddan 1992. Skjöl um landvistarleyfi mannsins fundust um borð í vörubílnum.
Talið er að hann hafi særst í átökum við pólskan vörubílstjóra sem hann rændi bílnum af og skaut síðar til bana.
Tólf manns féllu í árásinni og tugir særðust. Enn er verið að hlúa að 24 á sjúkrahúsum í Berlín.
BBC segir frá því að um 150 lögreglumenn hafi í dag tekið þátt í húsleit á stöðum í Emmerich í norðvesturhluta Þýskalands, þar sem landvistarleyfi mannsins var gefið út.
Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur fundað með öryggisráði landsins í dag vegna árásarinnar.
Vitað er að Túnisinn hefur notast við fjölda dulnefna. Hann á að hafa ferðast til Ítalíu árið 2012 og síðar til Þýskalands árið 2015 þar sem hann sótti um hæli og var veitt landvistarleyfi í apríl á þessu ári.
Hann hafði áður komið við sögu lögreglu, en hann var handtekinn í ágúst með fölsuð ítölsk skilríki og síðar sleppt.
Süddeutsche Zeitung greinir frá því að Túnisinn hafi átt í tengslum við íslamska predikarann Ahmad Abdelazziz A, betur þekktur sem Abu Walaa, sem handtekinn var í síðasta mánuði.
Túnisinn hafði átt í samskiptum við predikarann Abu Walaa

Tengdar fréttir

Árásin í Berlín: Leita að Túnisa á sjúkrahúsunum
Þýskir fjölmiðlar nafngreina manninn, segja hann vera á aldrinum 21 til 23 ára og hafa áður komið við sögu lögreglu.

Bild: Pólski vörubílstjórinn var á lífi þegar ekið var inn á jólamarkaðinn
Spiegel greinir nú frá því að lögregla leiti að Túnismanni sem gæti mögulega tengst málinu.