Björgunarsveitir slysvarnafélagsins Landsbjargar komu, sáu og sigruðu í vali hlustenda Rásar 2 á manni ársins. Þetta kom fram í Síðdegisútvarpinu í dag. Fréttamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson varð í öðru sæti og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknar og fyrrverandi forsætisráðherra, í því þriðja.
Niðurstöðunnar hafði verið beðið með óvenju mikilli eftirvæntingu sökum deilna Sigmundar Davíðs við RÚV vegna þess sem hann telur vera ósanngjarna umfjöllun um sig á árinu sem senn er að líða. Er hann sérstaklega ósáttur við umfjöllun í tengslum við félagið Wintris.
Jóhannes Kr. var einmitt í fararbroddi í umfjöllun Reykjavík Media í samstarfi við Kastljós og sænska ríkissjónvarpið við úrvinnslu gagna úr Panama-lekanum þaðan sem upplýsingarnar um umrætt félag komu fram. Sigmundur hefur farið fram á afsökunarbeiðni frá RÚV sem stendur við allan sinn fréttaflutning.
Talið hafði verið líklegt að Sigmundur Davíð myndi fara með sigur af hólmi í kjörinu og voru margir spenntir hvernig verðlaunaafhendingin færi fram. Ekkert verður af því. Ekki kemur fram á vef RÚV hvernig atkvæðin skiptust en metþátttaka var í kjörinu þar sem tuttugu þúsund atkvæði bárust.
