Handbolti

Jafntefli dugir nú strákunum okkar til að komast áfram í sextán liða úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Teca skorar fyirr Angóla í leiknum í dag.
Gabriel Teca skorar fyirr Angóla í leiknum í dag. Vísir/EPA
Túnis vann níu marka sigur á Angóla, 43-34,  í lokaleik sínum í riðlakeppni HM í handbolta í fyrsta leik dagsins í B-riðlinum.

Túnis hefði þurft að vinna sextán marka sigur til þess að vera ofar en Ísland endi liðin jöfn að stigum. Túnisbúar unnu leikinn hinsvegar aðeins með níu mörkum og því mun jafntefli á móti Makedóníu skila íslenska landsliðnu í sextán liða úrslitin.

Ísland og Túnis væru þá með jafnmörg stig og með jafnan árangur í innbyrðisleikjum en Ísland væri með betri markatölu í öllum riðlinum.

Túnis var sjö mörkum yfir í hálfleik, 23-16, en Angólamenn létu ekki keyra yfir sig í seinni hálfleiknum sem endaði „aðeins“ 20-18 fyrir Túnis. Gabriel Teca, línumaður Angóla skoraði 10 mörk úr 12 skotum í leiknum og var kosinn maður leiksins. Amine Bannour skoraði 10 mörk fyrir Túnis.

Íslensku strákarnir eiga hinsvegar enn möguleika á þriðja sæti riðilsins með með því að vinna Makedóníu á eftir. Það er stefnan enda lykilatriði að sleppa við leik á móti Frökkum í sextán liða úrslitunum.

Staðan er því alveg skýr. Vinni Ísland leikinn á móti Makedóníu þá endar liðið í 3. sæti í riðlinum og mætir Noregi í 16 liða úrslitin. Verði jafntefli í leiknum þá endar Ísland í 4. sæti í riðlinum og mætir Frakklandi í 16 liða úrslitum.

Tapist leikurinn á móti Makedóníu þá spilar Ísland hinsvegar við Pólland í Forsetabikarnum.

Rússland vann fjögurra marka sigur á Brasilíu, 28-24, á sama tíma og tryggði sér með því þriðja sætið í A-riðlinum. Brasilía endar í 4. sæti í A-riðli og mætir sigurvegara okkar riðils í sextán liða úrslitunum. Rússar mæta aftur á móti liðinu sem lendir í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×