Golf

Versta byrjun Tiger á ferlinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tiger Woods á vellinum í gær.
Tiger Woods á vellinum í gær. Vísir/Getty
Tiger Woods náði sér ekki á strik á fyrsta keppnisdegi Farmers Insurance-mótsins á PGA-mótaröðinni í gær.

Woods er að koma sér aftur af stað eftir langvarandi meiðsli og spilaði á 76 höggum, fjórum höggum yfir pari vallarins.

Hann hefur aldrei byrjað tímabil á PGA-mótaröðinni verr en fyrir tveimur árum hóf hann leik á 73 höggum á fyrsta sínu það árið.

Woods var á einum undir pari eftir ellefu holur en lenti í basli á seinni níu holunum. Þá fékk hann þrjá skolla í röð, þann fyrsta á 12. holu, og svo tvöfaldan skolla á fimmtándu holu. Til að bæta gráu á svart þá kom enn einn skollinn á sautjándu holu.

„Ég barðist eins og ég gat í dag,“ sagði Woods. „Þetta rann út í sandinn hjá mér á seinni níu og því miður hitti ég illa. En ég reyndi hvað ég gat og var í ágætri stöðu til að ná góðum hring. En ég kláraði hringinn og það er eitt af því jákvæða sem gerðist í dag.“

Woods er nú ellefu höggum á eftir fremsta manni, Englendingnum Justin Rose sem spilaði á sjö höggum undir pari í gær.

Sýnt verður beint frá Farmers Insurance mótinu á Golfstöðinni og hefst útsending klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×