Russell Westbrook var með þrefalda tvennu þegar Oklahoma City Thunder bar sigurorð af New Orleans Pelicans í nótt, 105-114. Westbrook skoraði 27 stig, tók 12 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
Þessa dagana er það frekar undantekning en regla ef Westbrook er ekki með þrefalda tvennu í leik. Þrennurnar hans í vetur eru nú orðnar 23 talsins.
Þrennan sem Westbrook náði í gær var hans sextugasta á ferlinum. Hann fór þar með upp fyrir Larry Bird á listanum yfir þá leikmenn sem hafa náð flestum þreföldum tvennum í sögu NBA.
Westbrook er núna í 5. sæti á þrennulistanum. Á toppi hans trónir Oscar Robertson með 181 þrennu. Magic Johnson kemur næstur með 138 þrennur og Jason Kidd er í 3. sæti með 107 þrennur.
Wilt Chamberlain vermir 4. sætið á þrennulistanum með 78 þrennur. Westbrook vantar því 19 þrennur til að komast upp fyrir Chamberlain. Miðað við spilamennsku Westbrooks í vetur verður þess ekki langt að bíða að hann nái Chamberlain.
Westbrook er með 30,7 stig, 10,7 fráköst og 10,4 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.
Flestar þrennur í sögu NBA:
1. Oscar Robertson - 181
2. Magic Johnson - 138
3. Jason Kidd - 107
4. Wilt Chamberlain - 78
5. Russell Westbrook - 60
6. Larry Bird - 59
7. LeBron James - 47
8. Fat Lever - 43
9. Bob Cousy - 33
10. John Havlicek - 31
