Strákarnir okkar eru nú á leið á æfingu á fótboltavellinum glæsilega Stade Pierre-Mauroy en það verður mikil upplifun fyrir þá að koma þangað inn.
Búið er að breyta þessum glæsilega 50 þúsund manna knattspyrnuvelli í 28 þúsund manna handboltavöll fyrir leik Íslands og Frakklands á morgun. Þetta er ekki umhverfi sem strákarnir eru vanir.
Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson er veikur og getur ekki æft með liðinu en allir hinir eru klárir í bátana og ætla að æfa. Það vill enginn missa af leiknum á morgun.
Það er vissara fyrir drengina að klæða sig ágætlega því þegar fjölmiðlamenn fóru í höllina fyrr í dag var svolítið kalt þar inni enda blæs í gegnum alla innganga þó svo þakið sé lokað.
Búið er að setja fjölda hitablásara í húsið og svo mun tæplega 30 þúsund skrokkar hjálpa til við að hita húsið á morgun.
Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
