Claire Williams, liðsstjóri Williams liðsins í Formúlu 1 segir að sér hafi liðið illa yfir að hringja í Felipe Massa og biðja hann um að hætta við að setjast í helgan stein.
Williams hringdi í Massa í desember skömmu eftir að hann hafði verið í höfuðstöðvum liðsins á jólahlaðborði. Hann var spenntur að koma aftur. Hann hætti víst aðallega vegna þess að hann vissi að það var ekki laust sæti hjá toppliði á næsta tímabili. Hann var ekkert kominn með nóg af Formúlu 1, að sögn Williams.
„Felipe [Massa] hafði tilkynnt um brotthvarf sitt, við vorum búin að halda fögnuð með aðdáendum og svo þurfti ég að hringja í hann, fyrrum ökumann okkar til að spyrja hvort hann vildi ekki hætta við að hætta,“ sagði Claire Williams í samtali við Sky Sports News.
„Ég hef aldrei heyrt neinn eins spenntan og ánægðan svo það var mikill léttir fyrir okkur. Við myndum aldrei setja ökumann í bílinn sem við hefðum ekki trú á. Eins og allir gátu séð í fyrra hefur hann ekki tapað ástríðunni,“ bætti hún við.
Williams viðurkennir að hún vissi af hópum fólks sem töldu liðið vera að breyta rangt. Margir voru á því að Massa ætti bara að fá að vera í friði og að ungur ökumaður ætti að fá tækifæri.
„Ég vissi ekki [fyrr en ég talaði við hann] að hann vildi ekki hætta. Ég er því sannfærð um að Felipe muni standa sig vel í ár.“
„Hann getur bara farið og notið þess að aka án þess að það sé pressa á honum. Stundum breytist fólk þegar pressunni er aflétt.“
Staðreyndin er sú að Williams þurfti á reynslumiklum ökumanni að halda við hlið nýliðans Lance Stroll. Liðinu vantaði einhvern sem hafði ekið bíl síðasta árs og vissi á hvaða braut liðið var. Pat Symonds fráfarandi tæknistjóri liðsins hafði áður talað um mikilvægi þess að halda reynslu innan liðsins til að geta haldið áfram á þeirri þróunarbraut sem liðið er á.
