Erlent

Hlé á morðherferð gegn fíkniefnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rodrigo Duterte forseti ásamt Ronald dela Rosa lögreglustjóra á blaðamannafundi í Maníla í gær.
Rodrigo Duterte forseti ásamt Ronald dela Rosa lögreglustjóra á blaðamannafundi í Maníla í gær. vísir/epa
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur ákveðið að stöðva tímabundið herferð lögreglunnar gegn fíkniefnum. Áður en haldið verður áfram þurfi að uppræta spillingu innan lögreglunnar.

Þessi ákvörðun var tekin eftir að hópur lögreglumanna rændi suður-kóreskum kaupsýslumanni og myrti hann á lögreglustöð. Þessi hópur lögreglumanna hefur tekið þátt í herferð forsetans gegn fíkniefnum, sem felst í því að elta uppi fíkniefnasala og fíkniefnaneytendur og taka þá af lífi án dóms og laga.

Frá því þessi herferð hófst í sumar hafa meira en sjö þúsund manns verið myrtir af lögreglunni.

Það var eitt helsta loforð Dutertes í kosningabaráttunni á síðasta ári að taka af fullri hörku á fíkniefnavandanum, með því hreinlega að láta lögregluna drepa fólk af miskunnarleysi. Þessari stefnu hafði hann áður fylgt sem borgarstjóri í Davao árum saman.

Duterte segir það óþægilegt að lögreglumennirnir hafi misnotað aðstöðu sína til að drepa kaupsýslumanninn frá Suður-Kóreu. Hins vegar ætli hann ótrauður að halda áfram herferðinni gegn fíkniefnum, strax og hreinsað hefur verið til í lögreglunni.

„Við munum hreinsa til í okkar ranni,“ sagði Ronald dela Rosa lögreglustjóri við fjölmiðla í gær. „Eftir það getum við kannski haldið áfram stríði okkar gegn fíkniefnum.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×