Íslenska karlalandsliðið mun hækka sig um eitt sæti á næsta styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins og um leið kemst Ísland í hóp tuttugu bestu knattspyrnulandsliða heims.
Stelpurnar okkar hafa verið á topp tuttugu síðasta áratuginn en þær voru í 20. sæti á síðasta FIFA-lista.
Þetta er í fyrsta sinn í sögu FIFA-listana sem íslensku landsliðin eru jöfn en stelpurnar hafa verið mun ofar á listanum undanfarna áratugi.
Karlalandsliðið, sem var um tíma hundrað sætum á eftir kvennalandsliðinu, hefur verið á stöðugri uppleið á heimslistanumm á sama tíma og að stelpurnar okkar hafa haldið velli meðal þeirra bestu.
Bæði landsliðin okkar komust í átta liða úrslit á síðasta Evrópumóti, strákarnir á EM í Frakklandi 2016 og stelpurnar á EM í Svíþjóð 2013. Framundan er síðan annað Evrópumót hjá stelpunum.
Það er stórmerkilegt að Ísland sé með bæði landsliðin sín svo ofarlega á heimslistanum í vinsælustu íþrótt heims og nú standa þau hlið við hlið meðal þeirra bestu í heimi.
Hér fyrir neðan má sjá samanburð á stöðu íslenska karlaliðsins og íslenska kvennaliðsins á FIFA-listanum undanfarin áratug.
Karlalandsliðið og kvennalandsliðið á FIFA-listanum síðustu ár
Febrúar 2017 - Jafnt
Karlar (20. sæti) - Konur (20. sæti)
Desember 2016 - Konur +1
Karlar (21. sæti) - Konur (20. sæti)
Desember 2015 - Konur +17
Karlar (36. sæti) - Konur (19. sæti)
Desember 2014 - Konur +13
Karlar (33. sæti) - Konur (20. sæti)
Desember 2013 - Konur +30
Karlar (49. sæti) - Konur (19. sæti)
Desember 2012 - Konur +75
Karlar (90. sæti) - Konur (15. sæti)
Desember 2011 - Konur +89
Karlar (104. sæti) - Konur (15. sæti)
Desember 2010 - Konur +95
Karlar (112. sæti) - Konur (17. sæti)
Desember 2009 - Konur +74
Karlar (92. sæti) - Konur (18. sæti)
Desember 2008 - Konur +64
Karlar (83. sæti) - Konur (19. sæti)
Desember 2007 - Konur +69
Karlar (90. sæti) - Konur (21. sæti)
