Emil Hallfreðsson og félagar í Udinese gerðu markalaust jafntefli við ChievoVerona í ítölsku seríu A-deildinni í dag. Emil lék allan leikinn inni á miðjunni fyrir Udinese.
Sampdoria fann óvæntan sigur á AC Milan, 1-0, á útivelli en Luis Muriel gerði eina mark leiksins á 70. mínútu og það úr vítaspyrnu.
Þá slátraði Lazio liði Pescara, 6-2, en Marco Parolo skoraði fjögur mörk í þeim leik fyrir Lazio.
Í kvöld mætast Juventus og Inter í stórleik helgarinnar á Ítalíu.
Juventus er í efsta sæti deildarinnar með 51 stig, þremur stigum meira en Napoli. Udinese er í því 12. með 29 stig.
Hér að neðan má sjá úrslit dagsins.
AC Milan 0 - 1 Sampdoria
Atalanta 2 - 0 Cagliari
ChievoVerona 0 - 0 Udinese
Empoli 1 - 1 Torino
Genoa 0 - 1 Sassuolo
Pescara 2 - 6 Lazio
17:00 Palermo - Crotone
19:45 Juventus - Inter
Emil lék allan leikinn í markalausu jafntefli
Stefán Árni Pálsson skrifar
