Aníta Hinriksdóttir er í flottu formi í upphafi innanhússtímabilsins og hún sýndi það og sannaði með því að vinna til silfurverðlaun í kvöld í 800 metra hlaupi á Copernicus Cup í Póllandi.
Hlaupið fór fram í Torun í Póllandi og Aníta kom í mark á 2:01.56 mínútum en sigurvegarinn var heimastúlkan Joanna Józwik sem kom í mark á 1:59.29 mín.
Aníta Hinriksdóttir setti nýtt Íslandsmet á Reykjavíkurleikunum um síðustu helgi þegar hún hljóp á 2:01,18 mínútum.
Aníta náði ekki því meti en hún hefur aftur á móti aldrei hlaupið hraðar innanhúss á erlendri grundu en í kvöld.
Hún jafnaði sitt besta hlaup sem var á EM í Prag 2015 en þó kom hún einnig í mark á 2:01,56 mínútum.
Þetta var jafnframt í sjöunda skiptið sem Aníta hleypur á undir 2:02.00 mínútum innanhúss.
Það er hægt að sjá úrslitin úr hlaupinu í kvöld með því að smella hér.
Aníta jafnaði sinn besta tíma á erlendri grundu og vann silfur
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
