Lögreglan í Malasíu segir að VX-taugaeitur hafi verið notað til að ráða Kim Jong-nam bana. Þetta er gríðarsterkt eitur sem erfitt er að framleiða og einkum er ætlað til notkunar í eiturefnahernaði. Sameinuðu þjóðirnar flokka það sem gjöreyðingarvopn.
Önnur kvennanna tveggja, sem grunaðar eru um að hafa orðið honum að bana, veiktist einnig af völdum eitursins. Ekki þó lífshættulega.
Kim Jong-nam var hálfbróðir einræðisherrans í Norður-Kóreu, Kim Jong-un. Hann veiktist skyndilega þann 13. febrúar síðastliðinn á flugvellinum í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, og lést stuttu síðar á leiðinni á sjúkrahús.
Upptaka úr öryggismyndavél sýnir að kona hafi gripið um andlit hans rétt áður en hann veiktist. Áður en hann lést sagði hann að konan hefði úðað einhverju efni framan í sig.
Bráðabirgðaniðurstöður úr rannsókn á lífsýnum sem tekin voru af andliti og augum Kims eru eiturefnið VX hafi valdið dauða hans. Eftir að þetta kom í ljós var ákveðið að loka flugstöðinni meðan verið væri að hreinsa hana rækilega.
Sterkur grunur er um að konurnar tvær hafi verið útsendarar frá Norður-Kóreu. Önnur þeirra er frá Indónesíu en hin frá Víetnam. Þær hafa báðar verið handteknar ásamt tveimur mönnum, en til viðbótar hafa sjö manns verið eftirlýstir.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
