Fyrirliðarnir í undanúrslitaleikjum Coca Cola-bikars kvenna í gær fengu ekki leyfi til þess að vera með regnbogafyrirliðabönd í leikjum gærdagsins í Laugardalshöll.
Frá þessu er greint á vefnum gayiceland.is. Þar kemur fram að stjórnarformaður Leikmannasamtaka Íslands, Hafdís Hinriksdóttir, hafi fært fyrirliðum liðanna fjögurra fyrirliðaböndin fyrir leik.
Samkvæmt reglum Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, þá mega fyrirliðaböndin aðeins vera í einum lit. Því var tekið fyrir þetta.
„Þessi regla er svona til að koma í veg fyrir pólitískan áróður á fyrirliðaböndunum en við áttum samt aldrei von á því að einhver myndi setja sig upp á móti þessu á Íslandi,“ segir Hafdís við gayiceland.is.
Leikmannasamtökin vonast til þess að karlaliðin í dag muni setja upp fyrirliðaböndin og sendi þar með út sterk skilaboð í íþróttaheiminn.
Umræðan um regnbogafyrirliðaböndin kom fyrst upp á EM árið 2016 er Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska ladnsliðsins, og Bjarte Myrhol, fyrirliði Noregs, ætluðu að vera með böndin á EM. Þeim var meinað að bera böndin.
Guðjón Valur var aftur á móti með regnbogafánann á skónum sínum á HM í Frakklandi í janúar og voru engar athugasemdir gerðar við það.
