Golf

Ólafía Þórunn upp um meira en hundrað sæti á heimslistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er að standa sig frábærlega á fyrstu LPGA mótum sínum.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er að standa sig frábærlega á fyrstu LPGA mótum sínum. Vísir/Getty
Frábær frammistaða Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur er heldur betur farin að skila sér í stöðu hennar á heimslistanum í golfi.

Ólafía Þórunn tók sannkallað risastökk á heimslistanum í golfi eftir að hafa endað í 30.til 39. sæti á ISPS Handa LPGA mótinu í Ástralíu um helgina. Þetta kemur fram í frétt á golf.is.

Ólafía Þórunn fór upp um heil 103 sæti á listanum og er núna í 503. sæti. Valdís Þóra Jónsdóttir fór upp um eitt sæti á heimslistanum og er núna í 692. sæti.

Á síðastliðnu ári hefur Ólafía Þórunn farið upp um 354 sæti á heimslistanum en Valdís Þóra hefur farið upp um 74 sæti.

30. sætið um helgina en besti árangur Ólafíu Þórunnar á LPGA mótaröðinni en hún er búin að komast í gegnum niðurskurðinn á tveimur fyrstu mótum sínum á sterkustu atvinnumótaröð heims.

Fyrir árangurinn á mótinu í Ástralíu fékk Ólafía um eina milljón kr. í verðlaunafé. Hún hefur unnið sér um 12.000 Bandaríkjadali eða sem nemur 1,3 milljónum kr. í fyrstu tveimur mótunum á LPGA.

Ólafía Þórunn er með sjötta besta árangurinn af nýliðum ársins 2017 á LPGA og er í 51. sæti á peningalistanum á LPGA. Brittany Lincicome frá Bandaríkjunum er efst á peningalistanum með um 24 milljónir kr. í verðlaunafé eftir tvö fyrstu mótin á LPGA.

Til þess að halda keppnisrétti sínum á LPGA þarf Ólafía að vera í einu af 90 efstu sætunum á peningalistanum í lok keppnistímabilsins. Næsta mót hennar á LPGA verður að öllum líkindum í Phoenix í Bandaríkjunum um miðjan mars.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×