Körfubolti

LeBron James næstum því búinn að keyra niður þjálfara NFL-meistaranna | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bill Belichick, þjálfari meistara New England Patriots í ameríska fótboltanum er vanur að umgangast stóra og mikla stráka í sínu daglega starfi.

Belichick lenti hinsvegar næstum því í “samstuði“ við körfuboltamann í NFL-stærð þegar hann mætti á NBA-leik á dögunum og þetta var ekki bara einhver leikmaður heldur sjálfur LeBron James.

Bill Belichick mætti til að sjá sína menn í Boston Celtics taka á móti NBA-meisturum Cleveland Cavaliers. Hann fékk sæti á gólfinu í TD Garden í Boston, en var staðsettur fyrir aftan aðra körfuna.

LeBron James missti jafnvægið í fjórða leikhlutanum þegar hann var að reyna að troða sóknarfrákasti í körfu Boston Celtics. James lenti á myndatökumanni fyrir aftan körfuna og síðan leit út fyrir að James ætlaði að keyra niður Bill Belichick í framhaldinu.

LeBron James tókst hinsvegar að stoppa sig af og koma í veg fyrir áreksturinn við þann sem flestir telja vera besta NFL-þjálfara allra tíma. Tölfræðin segir í það minnsta að hann sé það en Bill Belichick hefur gert New England Patriots fimm sinnum að meisturum.

„Þess vegna hægði ég á mér. Ég ætlaði ekki að keyra niður goðsögn. Ég geri ekki slíkt. Ég vil halda áfram að sjá hann vinna leiki,“ sagði LeBron James í léttum tón eftir leikinn.  Hér fyrir neðan má sjá myndband af atvikunu sem og það sem James sagði um Bill Belichick á Twitter.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×