Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og doktor í norrænum fræðum, hefur verið sleginn til riddara af Haraldi fimmta Noregskonungi. Frá þessu er greint í norskum miðlum en Bergsveinn hlaut viðurkenninguna á dögunum í tengslum við heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, til Noregs á dögunum.
Bergsveinn er heiðraður fyrir störf sín í þágu Norðmanna og fólksins en hann hefur hlotið ýmiss verðlaun fyrir ritstörf sín í gegnum tíðina. Hann hefur verið búsettur í Bergen í Noregi undanfarin ár.
„Það sem togaði mig hingað til Noregs upprunalega var að ég ætlaði að lesa trúarbragðasögu, einkanlega þá tengda norrænni goðafræði, ég er því miður ekki byrjaður á því enn þá,“ sagði Bergsveinn í viðtali í Fréttablaðinu í desember.
Þar var fjallað ítarlega um bók hans „Leitin að svarta víkingnum“ og hann spurður hvort fleira væri á teikniborðinu.
„Já, það er nú alltaf eitthvað í gerjun. Það eru mörg járn í eldinum og svo hamrar maður kannski eitt þeirra. Ég er með tvær skáldsögur í vinnslu og reikna með að önnur þeirra sé nú að komast á sæmilegt form. En ég er engin kýr. Ég framleiði seint og það væri löngu búið að slátra mér ef ætti að meta mig eftir slíkum viðmiðum.“