Skoðun

Hverjir styðja samdrátt til þróunarmála?

Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifar
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar til næstu 5 ára, kemur fram að Ísland ætlar að draga mun meira úr framlögum til þróunarmála en síðasta ríkisstjórn ákvað. Einnig stendur til að fækka samstarfslöndum í Afríku. Verði áætlunin samþykkt mun Ísland greiða helmingi minna til þróunarmála en ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar ætlaði sér að ná við mun verri efnahagsaðstæður en nú.

Með þessari skammarlegu ákvörðun nú í boði utanríkisráðherrans Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er verið að hunsa þingsályktun sem samþykkt var vorið 2013 af öllum viðstöddum þingmönnum, nema Vigdísi Hauksdóttur. Sú ályktun kvað á um að framlög Íslands til þróunarmála myndu hækka úr þáverandi 0,26% af vergum þjóðartekjum upp í 0,42% árið 2016. Á síðasta kjörtímabili var dregið úr þessari áætlun við mótmæli og hneykslan víða í samfélaginu, meðal annars á Alþingi og frá Þróunarsamvinnunefnd.

En nú á að lauma enn meiri lækkun gegnum þingið.

Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að fylgja markmiði Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Með því að halda prósentutölunni á sama stað og árið 2011, erum við ekki bara að gera lítið úr orðspori okkar á alþjóðavísu – en Norðurlöndin hafa öll greitt 0,7% til þróunarmála um árabil – heldur erum við að víkjast undan siðferðislegum skyldum sem efnaðs samfélags til að aðstoða þau allra fátækustu í þessum heimi. Fjármunir sem hafa runnið í að byggja skóla, tryggja menntun sárafátækra barna og stuðla að því að bæta mæðravernd og efla konur til sjálfstæðara lífs þar sem möguleikar þeirra eru af skornum skammti, verða lækkaðir verulega.

Sjálfstæðisflokkurinn staðfestir með þessari ákvörðun Guðlaugs Þórs hneykslanlega afstöðu sína til þróunarmála en það er afar sorglegt að slíkur niðurskurður njóti stuðnings þingmanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Sjá meira


×