Körfubolti

Mikill munur á oddaleikjareynslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristrún Sigurjónsdóttir hefur spilað oddaleik í sjö seríum í úrslitakeppninni í röð.
Kristrún Sigurjónsdóttir hefur spilað oddaleik í sjö seríum í úrslitakeppninni í röð. vísir/andri marinó
Keflavík og Skallagrímur spila í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í

úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

Sigurvegarinn í kvöld mætir Íslandsmeisturum þriggja síðustu ára í Snæfelli í lokaúrslitunum sem hefjast á mánudag.

Það er mikill munur á reynslu leikmanna liðanna af oddaleikjum í úrslitakeppni. Tveir leikmenn Skallagríms, þær Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir, munu setja nýtt met í kvöld með því að spila báðar sinn níunda oddaleik á ferlinum.

Kristrún hefur nú spilað oddaleik í sjö seríum í röð í úrslitakeppni. Sigrún er í oddaleik í undanúrslitum annað árið í röð en hún tapaði með Grindavík við sömu kringumstæður í fyrra. Liðsfélagi þeirra, Jóhanna Björk Sveinsdóttir, spilaði tvo oddaleiki með Haukum í úrslitakeppninni í fyrra.

Eini Keflvíkingurinn sem hefur tekið þátt í oddaleik er fyrirliðinn Erna Hákonardóttir og það bara tvisvar sinnum. Erna kom hins vegar ekki inn á í þessum leikjum, hvorki í oddaleik með Njarðvík í undanúrslitum 2011 né þegar Snæfell vann Hauka í úrslitaleik um titilinn í fyrra.

Oddaleikur Keflavíkur og Skallagríms hefst klukkan 19:15 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4 HD.



Oddaleikir leikmanna hjá Keflavík og Skallagrími

Keflavík

Erna Hákonardóttir 2 (2 sigrar - 0 töp)

Samtals 2

Skallagrímur

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 8 (5 sigrar - 3 töp)

Kristrún Sigurjónsdóttir 8 (4-4)

Guðrún Ósk Ámundadóttir 5 (4-1)

Jóhanna Björk Sveinsdóttir 3 (2-1)

Fanney Lind Thomas 3 (1-2)

Ragnheiður Benónísdóttir 2 (0-2)

Samtals 29




Fleiri fréttir

Sjá meira


×