
„Við hjá Krafti fögnuðum því þegar ríkisstjórnin lofaði að leggja fé í málaflokkinn. Hins vegar hefur ekkert gerst síðan og ný krabbameinslyf þurfa að bíða enn um sinn,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, formaður Krafts, stuðningsfélags ungs fólks með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Guðrún Gylfadóttir, segir það rétt að loforðið frá því í febrúar hafi ekki verið efnt en unnið sé að því innan ráðuneytisins að finna fjármagn til þess að taka inn ný krabbameinslyf. „Að mínu mati er þetta í góðum farvegi og unnið er að því í velferðarráðuneytinu. Á meðan erum við að taka inn ný lyf,“ segir Guðrún.
Ragnheiður segir alvarlegt að þurfa að bíða lengi eftir því að efna þetta loforð. „Það er ekki nóg að hlutirnir séu í vinnslu. Ríkisstjórnin er búin að samþykkja fjárútlát til málaflokksins og því þarf að hafa snör handtök,“ segir Ragnheiður. „Fólk sem býr við þessa sjúkdóma getur sumt hvert ekkert beðið eftir því að þessi mál verði afgreidd í stjórnsýslunni. Krabbameinssjúklingar hafa nóg með að huga að eigin heilsu í stað þess að bíða.“
Heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, hefur hunsað ítrekaðar beiðnir Fréttablaðsins síðustu daga og umleitanir fréttastofu um viðtal.
